WOW Cyclothon

27. júní 2014 kl. 12:17 Örninn TREK Örninn TREK

Nú er WOW Cyclothon-ið að líða undir lok og síðustu hetjurnar að rúlla yfir endalínuna. Það er óhætt að segja að mótið hafi heppnast vel og fékk það gríðarlega athygli. Hún María Ögn, keppnisstjóri og skipuleggjandi mótsins í ár, á stóran hlut í því og vann hún virkilega gott starf og bauð okkur hinum upp á spennandi og skemmtilega keppni.

Við viljum óska liðinu okkar, Örninn TREK, til hamingju með 2. sætið og stóðu þeir sig virkilega vel og fóru þessa 1330 km á 39 klukkustundunum og 12 mínútum. Strákarnir í Workforce A veittu okkar liði heldur betur krefjandi og spennandi keppni og sem endaði með spretti á síðustu metrunum sem þeir rétt mörðu og hirtu 1. sætið.

Það eiga allir heiður skilið sem klára þessa keppni en við viljum sérstaklega óska Hjólakrafti til hamingju með afrekið og stóðu þau sig eins og hetjur:
Önnur frábær TREK helgi

16. júní 2014 kl. 13:57 Birna, Hákon & Rúnar Birna, Hákon & Rúnar

Það er nóg um að vera í bæði hjólreiðum og þríþraut um þessar mundir. Á laugardaginn fór fram lengsta einstaklings hjólreiðakeppni ársins þegar Jökulmílan á Snæfellsnesi var þreytt. Um er að ræða keppni sem hefst á Grundarfirði og þaðan er hjólaður 163km rangsælis hringur um Snæfellsnes.

Í karlaflokki voru Hafsteinn og Árni Már fljótlega búnir að koma sér þægilega fyrir í fremsta hóp sem taldi 6 hjólara. Þessi hópur hjólaði saman um 120km eða þangað til um 20km voru eftir. Þá fóru Hafsteinn og Ingvar í einni brekkunni og Hafsteinn vann síðan Ingvar í endaspretti á tímanum 4:27:18 sem er frábær tími á þessari vegalengd. Árni Már varð sjötti í heildarkeppninni, um fjórum mínútum á eftir Hafsteini.

Í kvennakeppninni var María Ögn nokkuð örugg með fyrsta sætið alla leiðina þó að önnur lið hafi sett upp taktík til að reyna að koma í veg fyrir sigur hennar. Hún kom fyrst í mark á tímanum 5:12:37. Halldóra Gyða náði 3. sæti í sínum aldursflokki (40+). Guðbjörg Halldórsdóttir fór í Hálfa-Jökulmílu (74km) og varð 21. í heildina og fyrst í sínum aldursflokki (50+).

Á sunnudaginn var keppt um Íslandsmeistaratitil í Olympískri þríþraut en sú keppni fór fram á Laugarvatni. Byrjað var á því að synda 1500 m hring í Laugarvatni sem afmarkaður var með fjórum baujum. Eftir sundið tók við stutt hlaup upp úr vatninu á skiptisvæði við íþróttahúsið þar sem 40km hjólaleggur byrjaði. Þrautin endaði síðan á fjölbreyttum hlaupahring sem var farinn þrisvar sinnum, samtals um 9,7km. Hákon og Birna voru mætt til að verja titla sína frá því í fyrra. Hákon náði að klára þrautina á 1:59:18 en það er í fyrsta skipti sem Olympísk þraut er kláruð á undir 2 tímum hérlendis. Rúnar Örn varð 2. á tímanum 2:02:40. Birna vann kvennaflokkin á 2:16:50 og var tæpum 5 mínútum á undan næstu konu.

Tveir Íslandsmeistaratitlar í olympískri þríþraut bættust því við í safnið hjá Trek-liði Arnarins um helgina og tveir Jökulmílumeistarar, glæsilegur árangur hjá okkar fólki.

TREK flotinn lítur vel út:

  

Tíunda skiptið í röð!

11. júní 2014 kl. 2:25 Hafsteinn Ægir Geirsson Hafsteinn Ægir Geirsson

Hin árlega Bláalónsþraut fór fram um síðustu helgi og var það í 19. skipti sem keppnin er haldin. Í fyrsta skiptið voru 12 keppendur en núna voru rúmlega 600 hjólarar sem fóru þessa 57km þannig að keppendafjöldinn hefur fimmtugfaldast á þessum tíma. 

Hjólað var frá Ásvallalaug í Hafnar­f­irði um Krýsu­vík­ur­veg, inn Djúpa­vatns­leið, vest­ur Suður­strand­ar­veg í gegnum Grindavík og endað við Bláa lónið Keppnin hefur hlotið þann sess í gegnum tíðina að vera aðal hjólreiðakeppni bæði almennings og keppnishjólara þó ekki sé keppt um formlega titla. Keppnin er einnig opin þannig að erlendir hjólarar geta tekið þátt og fjöldi þeirra er alltaf að aukast. 

Í fyrra kom norskur atvinnumaður sem hafði það skýra markmið að vinna en sá tapaði á endanum fyrir Hafsteini sem hefur sýnt mikinn sigurvilja þegar mest á reynir. Nú kom annar norskur atvinnumaður (Eirik Bjørnebo) og ljóst fyrirfram að keppnin yrði mjög hörð. Sú varð raunin og fljótlega í keppninni höfðu Hafsteinn Ægir, bræðurnir Ingvar og Óskar og Eirik hinn norski náð gríðarlegu forskoti á aðra keppendur. Eirik missti síðan af þeim eftir miðja keppni en hinir þrír hjóluðu saman og Hafsteinn vann keppnina í endaspretti við bræðurna. 

Þetta var í 10. skiptið sem Hafsteinn tók þátt í þessari keppni og alltaf hefur hann unnið sem er ótrúlegt afrek þegar horft er til þess hve margt getur komið upp á í keppninni og hve hörð hún hefur verið undanfarin ár. Hafsteinn datt mjög fljótlega í keppninni og það fall hefði getað kostað hann sigurinn en hann slapp með skrámur og brotinn skóbúnað en heilt hjól og þurfti þá að hjóla fram úr ca 150 keppendum til að koma sér aftur fremst í hópinn. 

María Ögn vann kvennaflokkin með ótrúlegum yfirburðum en hún var nærri 17 mínútum á undan næstu konu og varð 28. í heildarkeppninni enda hjólaði hún mest með fremstu hópum. Hún hefur unnið keppnina í fimm skipti og miðað við yfirburði hennar má ekki búast að það breytist neitt á næstunni. 

Örninn-Trek átti fleiri hjólara í keppninni sem allir stóðu sig vel og náðu í nokkur aldursflokkaverðlaun. Guðbjörg Halldórsdóttir vann flokk kvenna 50 ára og eldri og Valgarður Guðmundsson varð annar í flokki 40 ára og eldri. Þau hjóla öll á TREK Superfly hjólum enda hafa þau hjól reynst mjög vel í þessari keppni.

Örninn óskar sínu fólki innilega til hamingju!

Góð vika að baki

1. júní 2014 kl. 16:14 TREK liðið 2014 TREK liðið 2014

Það hefur verið mikið að gera hjá hjá TREK liði Arnarins síðustu daga. Um síðustu helgi fór fram hálf-ólympísk þríþraut í Hveragerði við frekar erfiðar aðstæður en hitastig var einungis um 7 gráður, mikill vindur og rigning. Hálf-ólympískri þríþraut samanstendur af 750m sundi, 20km hjólreiðum og 5km hlaupi. Í Hveragerðisþríþraut er hlaupið á stígum í skemmtilegu umhverfi og mjög lítill hluti er á malbiki. Birna vann kvennaflokkinn af miklu öryggi og Hákon Hrafn vann karlaflokkinn á nýju brautarmeti, 60mín og 12sek. Rúnar Örn varð annar einnig undir gamla brautarmetinu.

Á miðvikudaginn fór svo fram fyrsta Cube-prólogue Bjarts en í þeirri keppni eru hjólaðir 7,2km niður Krýsuvíkurmalbik, semsagt stutt sprettkeppni. Hákon og Birna unnu opnu karla- og kvennaflokkana og þau héldu rúmlega 63km og tæplega 59km meðalhraða. Valgarður keppti í götuhjólaflokki og náði öðru sæti.

Á laugardag fór svo fram 2. bikarkeppni í götuhjólreiðum. Keppnin fór fram í Þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem hjólaðir voru klassískir hringir. Karlar hjóluðu 4 hringi (68km) og þar hófst keppnin á nokkuð háu tempói þannig að 6 hjólarar náðu að skilja hina eftir strax á fyrsta hring. Í þessum fremsta hóp voru Hafsteinn og Árni úr TREK liðinu og Valgarður var í hóp númer 2 sem var u.þ.b. hálfri mínútu á eftir. Keppnin endaði í endaspretti milli 5 hjólara og þar var það Hafsteinn sem var sterkastur og sigraði glæsilega. Árni Már varð 5., Valgarður 9. og Bjarki 16. Í kvennaflokki þróaðist keppnin svipað nema að þar þurfti María Ögn að sjá um að halda uppi hraðanum í fremsta hóp að mestu. Konurnar hjóluðu 3 hringi (51km) og þegar nokkrir kílómetrar voru eftir af síðasta hring fór María að setja hátt tempó og hreinlega skildi hinar eftir þó langt væri í marklínuna. Hún sigraði því nokkuð örugglega. Tímarnir voru ágætir en mjög erfiðar aðstæður komu í veg fyrir bætingar.

Í gær fór svo fram önnur hálf-ólympísk þríþraut í Hafnarfirði. Að þessu sinni var mættur öflugur Færeyingur, Guðmundur Joensen, sem keppir í atvinnumannaflokki í hálfum Járnmanni og hefur náð mjög góðum úrslitum á þeim vettvangi síðustu 2 ár. Keppnin í karlaflokki var því enn harðari en venjulega og Guðmundur hafði um mínútu í forskot á Hákon eftir sundið og leiddi keppnina þar til Hákon náði honum á hjólinu þegar sá leggur var tæplega hálfnaður. Hákon bætti svo tæpri mínútu í forskot fyrir hlaupalegginn og náði einnig að bæta forskotið á hlaupaleggnum um 10 sekúndur í viðbót og sigraði því nokkuð örugglega á tímanum 60 mín og 12 sek sem er nákvæmlega sami tími og í Hveragerðisþrautinni viku áður. Rúnar Örn varð 3. í keppninni, einni mínútu á eftir Guðmundi sem er einnig mjög góður árangur. Í kvennaflokki vann Birna örugglega á tímanum 69mín og 26 sek, rúmum 2 mínútum á undan næstu konu. Halldóra Gyða varð 8. og hún er greinilega að komast í form aftur eftir óhapp í vetur.

Semsagt fjórir tvöfaldir TREK-sigrar á rúmri viku. Í vikunni fer fram liða tímakeppni þar sem Örninn-TREK mun senda lið og svo fer Bláalónsþrautin fram um næstu helgi og þar mun okkar fólk vera í eldlínunni.

Fyrsta þríþraut ársins

19. maí 2014 kl. 13:00 Hákon & Birna. Hákon & Birna.

Fyrsta þríþraut sumarsins fór fram í gær í Kópavoginu þegar hin árlega sprettþraut Þríkó fór fram en í henni eru fyrst syntir 400m, síðan tekur 10,4km hjól við og að lokum 3,5km hlaup. Mótið var jafnframt Íslandsmót í þessari vegalengd. Veðuraðstæður voru nokkur góðar miðað við það sem þríþrautarfólk þurfti að sætta sig við síðasta sumar og miklu máli skipti að hjólabrautin var þurr en í henni eru nokkrar krappar og hættulegar beygjur. Rúmlega hundrað keppendur tóku þátt í þrautinni og var hún ræst í 3 þremur riðlum en síðasti riðillinn var fyrir byrjendur og mæltist sá vel fyrir. Fjölskylduþríþraut fór einnig fram í tengslum við keppnina og þar voru einnig um hundrað þátttakendur.

Í karlaflokki var fyrirfram búist við harðri keppni milli Hákons Hrafns og Rúnars Arnar en þeir eru báðir í Örninn-Trek liðinu. Þeir unnu allar þríþrautarkeppnir á síðasta ári og hafa bætt sig mikið í vetur. Rúnar byrjaði betur og hafði um 15 sek foryrstu þegar hjólaleggurinn byrjaði en Hákon vann þann mun upp og hafði um 40 sek forskot þegar hlaupið byrjaði og hann bætti síðan við það forskot og endaði rúmri mínútu á undan Rúnari á nýju brautarmeti 36mín og 25 sek.

Í kvennaflokki var einnig búist við harði keppni milli Birnu (Örninn Trek) og Ölmu Maríu. Birna hefur verið ósigrandi síðustu ár en Alma hefur hinsvegar verið að bæta sig mjög mikið á síðustu mánuðum. Birna tók góða forystu strax í sundinu sem hún hélt alla keppnina og jók bilið í hverjum legg og endaði tæpum þremur mínútum á undan Ölmu á tímanum 40mín og 14 sek sem er aðeins 9 sek frá hennar eigin brautarmeti.

Halldóra Gyða keppti einnig fyrir Örninn Trek og stóð sig mjög vel, bætti tímann sinn um 30 sekúndur, náði 6. sæti í heildarkvennakeppninni og 3. sæti í aldursflokki sem reyndist sterkasti aldursflokkurinn.

Criterium keppni HFR

16. maí 2014 kl. 9:12 María & Árni. María & Árni.

Örninn Trek sendi vel mannað lið í Criterium keppni HFR og Bílabúðar Benna (Porsche Criterium). Keppnin fór fram á tveggja kílómetra hring á iðnaðarsvæðinu á Völlunum í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Criterium keppnir fara alltaf fram á frekar stuttum hringbrautum (1-3 km langur hringur) og þá eru margir hringir hjólaðir. Keppnirnar eru stuttar og mikill hraði er í brautinni. 

Til að auka enn á hraðann eru oft veitt stig fyrir þann keppanda sem nær að vera fyrstur yfir marklínu á ákveðnum hringjum inn í miðri keppni. Sá sem nær því vinnur sprettmeistaratitilinn. Þannig er bæði keppt til sigurs með því að vera fyrstur yfir ráslínu á síðasta hring og einnig fyrir þessa ákveðnu hringi í miðri keppni. Einnig geta fremstu keppendur slegið síðustu keppendur úr keppni með því að ná að hringa þá. 

Að þessu sinni var boðið upp á C-flokk fyrir hjólreiðafólk sem hefur aldrei keppt í criterium keppni áður. Mæltist sá flokkur vel fyrir og voru um 60 þátttakendur í honum. Sá flokkur hjólaði 6 hringi. B-flokkur hjólaði 10 hringi og A-flokkur hjólaði 14 hringi. Örninn Trek setti upp skemmtilega liðstaktík í karlaflokki sem gekk fullkomlega upp og skilaði þremur efstu sætunum til okkar. Árni Már Jónsson vann, Hákon Hrafn varð annar og Valgarður þriðji. 

Í kvennaflokki var María Ögn ein að berjast við hinar stelpurnar en vann samt nokkuð örugglega. Hákon og María unnu keppnina um sprettmeistarann. María er gríðarlega öflug um þessar mundir og er búin að vinna öll 5 mótin sem hún er búin að keppa í á þessu vori. Gríðarlega skemmtilegt mót og frábær árangur hjá okkar fólki.

8. maí 2014 Fyrsta Tímakeppni sumarsins
8. maí 2014 Kæru viðskiptavinir
16. apr 2014 Opnun yfir páskana
16. apr 2014 Tvöfaldur sigur hjá TEAM TREK
27. mar 2014 Vorið er komið!
31. des 2013 Íþróttafólk ársins 2013
23. des 2013 Jólakveðja
19. des 2013 Opnunartími yfir hátíðarnar