Endurkoma Hafsteins

23. júlí 2015 kl. 15:47 Hafsteinn Ægir Geirsson Hafsteinn Ægir Geirsson

“Þetta var svona skyndiákvörðun fyrir mig þar sem ég hef verið að meta stöðuna á bata og formi dag frá degi. Skráði mig því í Gullhringinn á síðustu stundu, eða í raun þegar Einar Bárðarson var að biðja mig um að ræsa keppnina.

Vissi svo sem að formið væri ágætt en þó vantaði helling uppá, var með markmið, klára með fremstu mönnum! Pínu djarft markmið en vel mögulegt taldi ég.

Startið tafðist lítilega en startað var rétt eftir kl. 18:00. Var ég búinn að hugsa um að vera nokkuð rólegur til að byrja með og sjá svo hvernig lappir höndluðu álagið. Ekki var mikið í gangi fyrstu 20km en eftir það fóru menn að fikra sig framar því það voru framkvæmdir og því gróf möl sem þurfti að fara yfir (230 metrar). Þessi kafli var svo kallað “friðarsvæði” eða á þessu svæði má ekkert gera. Steinar Þorbjörnssson var búinn að skoða mölina vel og sagði mér að fylgja honum yfir sem ég gerði. Komst nokkuð örugglega þar yfir og slakaði hópurinn vel á þegar yfir var komið.

Eftir þetta fór að færast smá fjör í leikinn og reynt var að þynna hópinn eins og hægt var. Ég tók eftir því að það var smá hliðarvindur sem gaf kost á að keyra vel upp hraðan og hrista því nokkra frá hópnum. Gerði tilraun og hún hepnaðist ágætlega, reyndi svo aftur og enn fleiri helltust úr lestinni. Var nokkuð sáttur við hvernig lappirnar virkuðu og sá ég fram á að getað verið með fremsta hóp alla leið í mark.

Svo þegar rétt um 50 km voru búnir varð hraðabreyting í hópnum. Ég reyndi að komast framar, fór fram úr Guðmundi B. (hann var á hægri hönd) Taldi mig hafa nægt pláss en þá var ég pressaður utan í Guðmund B. Við þetta festist Guðmundur í hjólinu mínu, fellur í götuna og tekur nokkra með sér. Þarna var ég með hjól fast í mínu hjóli og augljóslega skemmt hjól, brotið stell. Eftir að hafa litið við og séð að allir voru á lífi var lítið annnað í stöðunni en að elta fremsta hóp sem komst í burtu. Því miður tókst ekki að koma skilaboðum til fremsta hóps að það hefði orðið nokkuð stórt “krass”. Keyrðum svo ca. 5 saman inní fremsta hóp sem hélt ágætis tempói fram að Grímsnesi. Þar fór Siggi Hansen “öfugt” út úr keðjunni og fremstu menn á eftir honum þurftu að bremsa skyndilega til að fara ekki útaf. Mér tókst, verandi aftarlega í hópnum, rétt svo að sleppa við að keyra aftan á næsta mann. Rúnar Karl var ekki svo heppinn og hjólaði aftan á mig og tók afturskiptinn af hjá mér og féll sjálfur í götuna. Þar þurfti ég að hætta keppni, í fyrsta skiptið í götuhjólakeppni á mínum ferli, því hjólið var svo gott sem ónýtt eftir þessa tvö árekstra. Engu að síður var ég nokkuð sáttur að hafa verið þetta framarlega og var þetta vísbending um ágætis form þrátt fyrir að hafa lítið æft vegna meiðsla.

Því miður þá munu svona árekstrar í keppnum gerast aftur og aftur. Það eru margir góðir að koma inn í hjólreiðarnar og eru enn að læra að hjóla. Einnig er þetta algengt í atvinnumanna keppnum svo kemur ekkert sérlega á óvart að svona gerist í áhugamannakeppnum.

Ágætis byrjun hjá mér en hundfúllt að hafa ekki getað klárað. Góða við daginn er að okkar fólk, Elvar Örn og María Ögn sigruðu Gullhringinn A.”

Hörð keppni í þríþrautinni

9. júlí 2015 kl. 10:26 Hákon og Rúnar Hákon og Rúnar

Tvö stór þríþrautarmót fóru fram nýlega. Annarsvegar íslandsmótið í olympískri þríþraut sem fór fram á Laugarvatni (1500m sund, 40km hjól og 10 km hlaup) og svo íslandsmótið í hálfum járnmanni (1900m sund, 90km hjól og 21,1km hlaup) sem fór fram í Hafnarfirði um síðustu helgi. Í báðum keppnum var mjög hörð keppni í karlaflokki á milli Rúnars og Hákonar sem eru báðir í Trek liðinu.

Á Laugarvatni syntu þeir hlið við hlið báða sundhringina og komu saman inn á skiptisvæðið. Rúnar var aðeins ringlaður eftir sundið og var örlítið lengur að koma sér á hjólið en Hákon. Þeir hjóluðu nánast á sama tíma og einungis munaði 18 sek á þeim þegar hlaupið byrjaði. Rúnar rann í lausamöl í byrjun hlaupsins og missti aðeins tempó og svo fór að Hákon hljóp á 35:43 en Rúnar á 36:14. Heildartími Hákonar var 2:02:09 og Rúnar var 49 sek á eftir í 2. sæti. Margrét Páls sem keppir fyrir Örninn-Trek varð 7. í kvennaflokki á tímanum 2:52:50 og hjólaði hún best allra kvenna á Trek þríþrautarhjólinu sínu.

Í Hafnarfirði var um hreint einvígi á milli Rúnars og Hákonar að ræða. Þeir syntu saman á braut og skiptust á að vera á undan hvor öðrum. Hákon var 14 sek fljótari á skiptisvæðinu (T1) en sá munur fólst í því að Rúnar fór í sokka en Hákon geymdi það fyrir hlaupið. Hákon náði um 90 sek forskoti á hjólinu á fyrstu 45km sem Rúnar náði síðan að halda í og minnka aðeins undir lokin. Hjólatími þeirra var sá hraðasti sem sést hefur á þessari vegalengd en báðir héldu yfir 40km hraða á klukkustund en þeir hafa neitað að gefa upp meðalwöttin en spekingarnir eru að tala um 300+ í meðalvött. Hákon var síðan ansi lengi á skiptisvæðinu (T2) og þegar Rúnar byrjaði hlaupið var forysta Hákonar aðeins 64 sek og hálft maraþon eftir. Hlaupnar voru fjórar ferðir upp og niður Vallarhverfið og Rúnar saxaði 20 sek af forystunni í fyrstu ferð og forskot Hákonar því komið niður í 44 sek. Rúnar tók síðan 11 og 12 sek í næstu tveimur ferðum og forskotið því aðeins 21 sek fyrir síðustu ferð (5,3km). Rúnar náði að minnka það hressilega en komst síðan ekki nær Hákoni en ca 10 sek og Hákon kom í mark á tímanum 4:02:22 og Rúnar 10 sek á eftir. Tími þeirra dugar á topp 10 í meðal sterkum atvinnumannakeppnum erlendis. Tími Rúnars í hlaupinu var 1:17:52 sem er tími sem dugar inn á topp 10 lista yfir ársbesta tíma í hálfu maraþoni á Íslandi (án þess að synda og hjóla á undan). Margrét Páls stóð sig einnig vel í þessari keppni en hún náði 3. sæti á tímanum 5:28:54 en hún mun keppa í heilum járnmanni í Barcelona í oktober.

Heiðmerkuráskorun 2015

6. júlí 2015 kl. 8:24

Örninn þakkar öllum þáttakendum í Heiðmerkuráskoruninni 2015 fyrir komuna til okkar. Það voru grillaðir 300 hamborgarar og fóru allir saddir og sælir. Sérstaklega gaman var að sjá hversu margir krakkar tóku þátt og lofar góðri framtíð fyrir hjólreiðar á Íslandi. Einnig bestu þakkir til HFR fyrir flotta keppni.

Úrslit má finna hér: http://www.thriko.is/results/hjol_heidmork_2015.htm

TREK sigursælt!

25. júní 2015 kl. 14:35 Örninn TREK 1. sæti í B-flokki. Örninn TREK 1. sæti í B-flokki.

WOW Cyclothon 2015

Við óskum liðinu okkar, Örninn TREK, til hamingju með sigurinn í B-flokki WOW Cyclothon 2015 (10 manna lið). Hjólaðir voru alls 1358 kílómetrar sem strákarnir kláruðu á rétt tæplega 36 klukkustundum og 52 mínútum á meðalhraðanum 36,84 km/klst.

HFR Ungliðar, hlaðið hörkutólum, veittu liðinu mikla keppni og komu í mark rétt á eftir. Liðin tvö hjóluðu saman nánast allan hringinn í samfloti og skildu einungis rúmlega 6 mínútur liðin að. Burt séð frá úrslitum, þreytu og svitalykt ljómuðu bæði lið og brostu sínu breiðasta, enda mikið afrek að baki – Til hamingju HFR Ungliðar!

Í A-flokki (4 manna lið) sigruðu Eldfljótir, þeir Anton Örn, Davíð Þór, Kári og Rúnar Karl. Þess má geta að Rúnar Karl er í Örninn TREK liðinu en hjólaði með Eldfljótum í þetta skiptið. Þeir hjóluðu hringinn á 38 klukkustundum og 44 mínútum á meðalhraðanum 35,06 km/klst.

Hluti af stelpunum úr liðinu okkar mynduðu liðið HFR/Renault í B-flokki, þær María Ögn, Guðrún, Margrét og Guðbjörg. Þær voru fyrsta liðið, sem skipað var einungis af kvennmönnum, sem kom í mark. Enduðu í 18. sæti í heildina á tímanum 42 klukkustundum og 46 mínútum á meðalhraðanum 31,75 km/klst.

Við óskum Hjólakrafti innilega til hamingju með frábæran árangur. Hvorki fleiri né færri en 4 lið frá Hjólakrafti lögðu leið sína í keppnina að þessu sinni sem er 300% aukning frá því í fyrra - geri aðrir betur! Það hefur verið okkur sönn ánægja og heiður að vinna með öllu því frábæra fólki sem skipar Hjólakraft. Orkan og gleðin, sem skín úr hverju andliti, myndi sjálfsagt duga til að koma mönnuðu geimfari til tunglsins og tilbaka. Þorvaldur Daníelsson og félagar hafa fært fjöll með þessu einstaka framtaki sínu með óþrjótandi uppsprettu af óbilandi trú og jákvæðni. Hjólakraftur er komin til að vera og mun halda áfram að hjóla sig inn í hjörtu landsmanna. Okkur hlakkar mikið til að vinna með þessu magnaða fólki í WOW keppninni á næsta ári.

TREK hjólin voru sigursæl í Cyclothon í ár. Af 24 hjólum, í 1. og 2. sæti í B-flokki og 1. sæti í A-flokki voru 18 TREK hjól, eða 75%. Ásamt því eru nánast allir í Hjólakraft á TREK hjólum.

Þeir sem hjóluðu fyrir Örninn TREK í ár voru eftirfarandi: (Í röð frá mynd) Hákon Hrafn Sigurðsson – TREK Émonda SLR 8 Steinar Þorbjörnsson – TREK Émonda SL 6 Elli Cassata – TREK Domane 5 Series P1 Valgarður Guðmundsson – TREK Émonda SLR Bjarki Bjarnason – TREK Domane 5.2 / TREK Fuel 9.9 Árni Már Jónsson – TREK Madone 7.9 Rúnar Örn Ágústsson – TREK Émonda SL P1 Stefán Haukur Erlingsson – TREK Émonda SLR P1 Elvar Örn Reynisson – TREK Émonda SL Hafsteinn Ægir Geirsson – TREK Émonda SLR HFR/Renault stelpurnar hjóla á: María Ögn Guðmundsdóttir – TREK Madone 6 Series SSL Guðrún Sigurðardóttir – TREK Émonda SL 6 Margrét Pálsdóttir – TREK Madone 4.5 WSD Guðbjörg Halldórsdóttir – TREK Domane 6.9 WSD

Örninn óskar keppendum sem hafa nú þegar klárað keppni og eru alveg við það að klára til hamingju með árangurinn! Þetta snýst fyrst og fremst að hafa gaman og gera sitt besta – Þið eruð öll sigurvegarar!

Skráningargögn - Bláa Lóns þrautin

10. júní 2015 kl. 13:57 Bláa Lóns þrautin 2015 Bláa Lóns þrautin 2015

Skráningargögnin fyrir Bláa Lóns þrautina eru komin til okkar í búðina. Þar sem troðfullt er í þrautina að þá er númer skráningar vel þegin þegar sótt er til að auðvelda uppflettingu, annars getum við líka flett upp eftir nafni.

21. maí 2015 Heimsókn frá leikskólanum Arnarsmára
20. maí 2015 Hjálmadagar!
18. maí 2015 HFR Criterium
12. maí 2015 Fyrsta þríþraut sumarsins
12. maí 2015 2. bikar í fjallahjólreiðum
10. maí 2015 Fyrstu keppnir sumarsins
10. maí 2015 Stelpusamhjól Arnarins
22. apr 2015 Lokað sumardaginn fyrsta
20. apr 2015 Vor í lofti
14. apr 2015 Viltu vinna Project One?
1. apr 2015 Opnunartími um páska
7. mar 2015 Nýjar vörur streyma inn
1. mar 2015 BBB Samhjól 1. mars
6. jan 2015 Gleðilegt nýtt ár!
17. des 2014 Opnunartími um hátíðarnar