Skólatilboð!

17. ágúst 2015 kl. 13:03 TREK 8.2 Dual Sport TREK 8.2 Dual Sport

Við erum byrjaðir með skólatilboð á þremur týpum sem henta mjög vel fyrir skólann, einföld en sterk hjól sem þola mikla notkun og koma þér nánast allra þinna leiða.

TREK 3500, TREK Skye og TREK 8.2 Dual Sport. Þau koma vel útbúin eða með brettasetti, standara, lás, bjöllu og blikkljósum bæði framan og aftan.

Tilboðið gildir út laugardaginn 5. september á meðan birgðir leyfa - Takmarkað magn!

Smelltu á myndina til að stækka og skoða Skólatilboðin nánar:

Lokað 1. ágúst

29. júlí 2015 kl. 21:17

Það er gömul hefð hjá okkur að hafa lokað í verslun okkar á laugardeginum um verslunarmannahelgina. Svo að 1. ágúst gefum við starfsfólkinu okkar frí og opnum aftur þriðjudaginn 4. ágúst kl. 09.00.

Gleðilega verslunarmannahelgi og hjólið hægt um gleðinnar dyr!

Endurkoma Hafsteins

23. júlí 2015 kl. 15:47 Hafsteinn Ægir Geirsson Hafsteinn Ægir Geirsson

“Þetta var svona skyndiákvörðun fyrir mig þar sem ég hef verið að meta stöðuna á bata og formi dag frá degi. Skráði mig því í Gullhringinn á síðustu stundu, eða í raun þegar Einar Bárðarson var að biðja mig um að ræsa keppnina.

Vissi svo sem að formið væri ágætt en þó vantaði helling uppá, var með markmið, klára með fremstu mönnum! Pínu djarft markmið en vel mögulegt taldi ég.

Startið tafðist lítilega en startað var rétt eftir kl. 18:00. Var ég búinn að hugsa um að vera nokkuð rólegur til að byrja með og sjá svo hvernig lappir höndluðu álagið. Ekki var mikið í gangi fyrstu 20km en eftir það fóru menn að fikra sig framar því það voru framkvæmdir og því gróf möl sem þurfti að fara yfir (230 metrar). Þessi kafli var svo kallað “friðarsvæði” eða á þessu svæði má ekkert gera. Steinar Þorbjörnssson var búinn að skoða mölina vel og sagði mér að fylgja honum yfir sem ég gerði. Komst nokkuð örugglega þar yfir og slakaði hópurinn vel á þegar yfir var komið.

Eftir þetta fór að færast smá fjör í leikinn og reynt var að þynna hópinn eins og hægt var. Ég tók eftir því að það var smá hliðarvindur sem gaf kost á að keyra vel upp hraðan og hrista því nokkra frá hópnum. Gerði tilraun og hún hepnaðist ágætlega, reyndi svo aftur og enn fleiri helltust úr lestinni. Var nokkuð sáttur við hvernig lappirnar virkuðu og sá ég fram á að getað verið með fremsta hóp alla leið í mark.

Svo þegar rétt um 50 km voru búnir varð hraðabreyting í hópnum. Ég reyndi að komast framar, fór fram úr Guðmundi B. (hann var á hægri hönd) Taldi mig hafa nægt pláss en þá var ég pressaður utan í Guðmund B. Við þetta festist Guðmundur í hjólinu mínu, fellur í götuna og tekur nokkra með sér. Þarna var ég með hjól fast í mínu hjóli og augljóslega skemmt hjól, brotið stell. Eftir að hafa litið við og séð að allir voru á lífi var lítið annnað í stöðunni en að elta fremsta hóp sem komst í burtu. Því miður tókst ekki að koma skilaboðum til fremsta hóps að það hefði orðið nokkuð stórt “krass”. Keyrðum svo ca. 5 saman inní fremsta hóp sem hélt ágætis tempói fram að Grímsnesi. Þar fór Siggi Hansen “öfugt” út úr keðjunni og fremstu menn á eftir honum þurftu að bremsa skyndilega til að fara ekki útaf. Mér tókst, verandi aftarlega í hópnum, rétt svo að sleppa við að keyra aftan á næsta mann. Rúnar Karl var ekki svo heppinn og hjólaði aftan á mig og tók afturskiptinn af hjá mér og féll sjálfur í götuna. Þar þurfti ég að hætta keppni, í fyrsta skiptið í götuhjólakeppni á mínum ferli, því hjólið var svo gott sem ónýtt eftir þessa tvö árekstra. Engu að síður var ég nokkuð sáttur að hafa verið þetta framarlega og var þetta vísbending um ágætis form þrátt fyrir að hafa lítið æft vegna meiðsla.

Því miður þá munu svona árekstrar í keppnum gerast aftur og aftur. Það eru margir góðir að koma inn í hjólreiðarnar og eru enn að læra að hjóla. Einnig er þetta algengt í atvinnumanna keppnum svo kemur ekkert sérlega á óvart að svona gerist í áhugamannakeppnum.

Ágætis byrjun hjá mér en hundfúllt að hafa ekki getað klárað. Góða við daginn er að okkar fólk, Elvar Örn og María Ögn sigruðu Gullhringinn A.”

Hörð keppni í þríþrautinni

9. júlí 2015 kl. 10:26 Hákon og Rúnar Hákon og Rúnar

Tvö stór þríþrautarmót fóru fram nýlega. Annarsvegar íslandsmótið í olympískri þríþraut sem fór fram á Laugarvatni (1500m sund, 40km hjól og 10 km hlaup) og svo íslandsmótið í hálfum járnmanni (1900m sund, 90km hjól og 21,1km hlaup) sem fór fram í Hafnarfirði um síðustu helgi. Í báðum keppnum var mjög hörð keppni í karlaflokki á milli Rúnars og Hákonar sem eru báðir í Trek liðinu.

Á Laugarvatni syntu þeir hlið við hlið báða sundhringina og komu saman inn á skiptisvæðið. Rúnar var aðeins ringlaður eftir sundið og var örlítið lengur að koma sér á hjólið en Hákon. Þeir hjóluðu nánast á sama tíma og einungis munaði 18 sek á þeim þegar hlaupið byrjaði. Rúnar rann í lausamöl í byrjun hlaupsins og missti aðeins tempó og svo fór að Hákon hljóp á 35:43 en Rúnar á 36:14. Heildartími Hákonar var 2:02:09 og Rúnar var 49 sek á eftir í 2. sæti. Margrét Páls sem keppir fyrir Örninn-Trek varð 7. í kvennaflokki á tímanum 2:52:50 og hjólaði hún best allra kvenna á Trek þríþrautarhjólinu sínu.

Í Hafnarfirði var um hreint einvígi á milli Rúnars og Hákonar að ræða. Þeir syntu saman á braut og skiptust á að vera á undan hvor öðrum. Hákon var 14 sek fljótari á skiptisvæðinu (T1) en sá munur fólst í því að Rúnar fór í sokka en Hákon geymdi það fyrir hlaupið. Hákon náði um 90 sek forskoti á hjólinu á fyrstu 45km sem Rúnar náði síðan að halda í og minnka aðeins undir lokin. Hjólatími þeirra var sá hraðasti sem sést hefur á þessari vegalengd en báðir héldu yfir 40km hraða á klukkustund en þeir hafa neitað að gefa upp meðalwöttin en spekingarnir eru að tala um 300+ í meðalvött. Hákon var síðan ansi lengi á skiptisvæðinu (T2) og þegar Rúnar byrjaði hlaupið var forysta Hákonar aðeins 64 sek og hálft maraþon eftir. Hlaupnar voru fjórar ferðir upp og niður Vallarhverfið og Rúnar saxaði 20 sek af forystunni í fyrstu ferð og forskot Hákonar því komið niður í 44 sek. Rúnar tók síðan 11 og 12 sek í næstu tveimur ferðum og forskotið því aðeins 21 sek fyrir síðustu ferð (5,3km). Rúnar náði að minnka það hressilega en komst síðan ekki nær Hákoni en ca 10 sek og Hákon kom í mark á tímanum 4:02:22 og Rúnar 10 sek á eftir. Tími þeirra dugar á topp 10 í meðal sterkum atvinnumannakeppnum erlendis. Tími Rúnars í hlaupinu var 1:17:52 sem er tími sem dugar inn á topp 10 lista yfir ársbesta tíma í hálfu maraþoni á Íslandi (án þess að synda og hjóla á undan). Margrét Páls stóð sig einnig vel í þessari keppni en hún náði 3. sæti á tímanum 5:28:54 en hún mun keppa í heilum járnmanni í Barcelona í oktober.

Heiðmerkuráskorun 2015

6. júlí 2015 kl. 8:24

Örninn þakkar öllum þáttakendum í Heiðmerkuráskoruninni 2015 fyrir komuna til okkar. Það voru grillaðir 300 hamborgarar og fóru allir saddir og sælir. Sérstaklega gaman var að sjá hversu margir krakkar tóku þátt og lofar góðri framtíð fyrir hjólreiðar á Íslandi. Einnig bestu þakkir til HFR fyrir flotta keppni.

Úrslit má finna hér: http://www.thriko.is/results/hjol_heidmork_2015.htm

25. jún 2015 TREK sigursælt!
10. jún 2015 Skráningargögn - Bláa Lóns þrautin
21. maí 2015 Heimsókn frá leikskólanum Arnarsmára
20. maí 2015 Hjálmadagar!
18. maí 2015 HFR Criterium
12. maí 2015 Fyrsta þríþraut sumarsins
12. maí 2015 2. bikar í fjallahjólreiðum
10. maí 2015 Fyrstu keppnir sumarsins
10. maí 2015 Stelpusamhjól Arnarins
22. apr 2015 Lokað sumardaginn fyrsta
20. apr 2015 Vor í lofti
14. apr 2015 Viltu vinna Project One?
1. apr 2015 Opnunartími um páska
7. mar 2015 Nýjar vörur streyma inn
1. mar 2015 BBB Samhjól 1. mars